sunnudagur, júní 13, 2004

Sjónvarpstískan

Sjónvarpið okkar er komið til ára sinna. Mamma og pabbi keyptu það fyrir ca 12 árum síðan og við erfðum það þegar þau fluttu til DK. En það er stórgott. En nú er takkinn orðinn þreyttur, á júróvisjóndaginn kveikti ég á því og þá gaf takkinn eftir, hann fer inn með puttanum en fylgir honum svo aftur út. Það þarf því annað hvort einn að standa upp við tækið og halda takkanum inni eða - eins og við gerðum - teipa takkann niður og við settum þar að auki tannstöngul á milli takka og sjónvarps til að hafa tvöfalda tryggingu.
En s.s. þegar þetta gerðist fóru í gang vangaveltur um að kaupa nýtt sjónvarp áður en við förum heim. Þá komst ég að því að tískusveiflurnar í sjónvörpum fylgja ekki mínum smekk. Í fyrsta lagi vil ég ekki grátt sjónvarp eins og er nánast eingöngu hægt að fá núna, ég vil svart. Í öðru lagi skil ég ekki þetta með widescreen sjónvörpin. Allt sjónvarpsefni er miðað við 4:3 en ekki 16:9. Fréttamennirnir verða því teygðir, feitir og asnalegir þegar þeir eru teknir úr sínum eðlilegu hlutföllum. Ef maður lætur svo bíómyndirnar fylla upp í skjáinn á widescreen tapar maður textanum því hann er alltaf settur á svörtu röndina neðst. Ég sé því engan ávinning í því fyrir aðra en enskumælandi fólk og þjóðverja. Ég vil hafa texta.
Það er því held ég bara niðurstaða að láta tannstöngulinn og teipið duga þangað til minn smekkur breytist eða sjónvarpstískan... Annars langar mig mest í skjávarpa og kæmi ekki á óvart ef ég næði því í gegn þegar að sjónvarpskaupum kemur. Sjáum til hvernig gengur að réttlæta það!!