Jólabarn
Hrafn Elísberg er þeirrar ógæfu aðnjótandi að hafa fæðst 22. desember.
Við ákváðum, eftir dræma þátttöku í afmælisveislunni hans í fyrra, að halda upp á afmælið alltaf á fyrsta í aðventu. Fyrrverandi nágranni mágkonu minnar á sama afmælisdag og hann mælti eindregið með þessu fyrirkomulagi. Svona var þetta alltaf gert hjá honum. Þá mundu allir eftir afmælinu og það varð fastur liður í fjölskyldunni að kíkja í aðventukaffi heim til hans.
Við ætlum ekki að gefa honum gjöfina frá okkur fyrr en á afmælisdaginn svo hann fær aftur pakka þá. Ætli ég bjóði ekki upp á danskar eplaskífur og heitt kakó þann daginn - væri það ekki góð hefð? Þá geta aðdáendur eplaskífa kíkt við ef þeir vilja og reynt að afstressa sig fyrir jólin. Og Hrafn fær að eiga sinn afmælisdag.
Þá verða komnir tveir pakkadagar hjá Hrafni og hann skilur ekkert í því af hverju jólin koma aldrei. Hann fékk alltaf að heyra að þegar jólin koma verður hann þriggja. Hann beið þess vegna allan síðasta sunnudag eftir því að jólin kæmu.
„Nú þurfum við að klæða okkur því gestirnir fara að koma“
„Koma þá jólin?“
Nokkrar útfærslur af þessu samtali áttu sér stað þann daginn. En aldrei komu jólin. Og eru ekki enn komin.
En þau koma.