þriðjudagur, janúar 30, 2007

Lóðin til sölu

Erum komin til Odense og Tinna og Daddi búin að sannfæra okkur um að vera spontant - selja lóðina og flytja aftur út. Spurning.

Förum til Hamborgar á morgun í von um að fá miða á leikinn. Fórum út í þeirri góðu trú að vera komin með miða á leikina á þri og fim en haldiði að það sé ekki að klikka!! Treystum á Bjarka og hans mafíu. Annars er Julio í málinu líka. Vonum að það komi e-ð út úr því. Tók því að torða börnunum upp á Írisi og stressa sig í þennan hálfa sólarhring sem leið frá því að ákvörðunin var tekin þar til við lögðum af stað upp á völl... En vonandi var það allt þess virði :) Það verður samt alltaf þess virði, erum í góðum félagsskap.

föstudagur, janúar 26, 2007

Húsið

Ég ligg yfir skissunum hans pabba þessa dagana. Hann sendi okkur skissur með fyrstu hugmynd að húsinu og það er sama hvað ég reyni ég get ekki fundið betri lausn á neinu þarna inni. Mér finnst samt e-ð óþægilegt við að samþykkja fyrstu hugmynd. Finnst eins og það geti ekki verið að maður verði strax sáttur. Það var ýmislegt sem við höfðum um málið að segja fyrst en þegar ég hlustaði á rökin fyrir því af hverju hann gerði þetta svona sannfærðist ég um að þetta væri it. En á eftir að liggja aðeins betur yfir þessu. Ég er auðvitað strax farin að hugsa mér hvernig eldhús mig langar í og svona :) Aðeins komin fram úr sjálfri mér.
Annars er Hjörtur búinn að fá tvö tilboð í lóðina... spurning um að sleppa þessu bara og fara að braska :) Nei tími því ekki.

Ég gleymdi alltaf að setja inn Mexíkó-súpu uppskriftina. Hér kemur hún Tinna:

2 laukar
4 hvítlauksrif
2 msk olía
2 dósir hakkaðir tómatar
1 kjúklingakraftur
1 nautakraftur
1 l. vatn
1 l. tómatdjús
1 msk kóríander
1,5 tsk chili
1,5 tsk cayennapipar


Laukarnir steiktir í olíunni þar til sveittir, þá rest skellt út í og látið malla í 2 klst. (því lengur því betra, má líka alveg vera bara í smá tíma).

1 steiktur kjúklingur rifinn út í í lokin.

Meðlæti:
Doritos
Sýrður rjómi
Rifinn ostur

Borðað svona:
Hver og einn mylur Doritos í sína skál, setur sýrðan rjóma ofan á og svo súpuna í skálina. Síðast er rifnum osti dreift yfir.
Namm.


Eigið góða helgi. Ég stefni á það.

laugardagur, janúar 20, 2007

Tempur

Hahah, gat ekki annað en hlegið að svörunum hjá Gumma og Kristni í færslunni fyrir neðan. Var að spá í þessu með hurðarhúnana - held að þessir rauðu hafi verið uppi í bústað. Eða voru þeir í Akurgerðinu? Smart.

Annars var að detta í hús þessi líka laaaangþráða dýna - Tempur dýna. Vá hvað ég hlakka til að fara að sofa í kvöld og vakna í fyrramálið, örugglega án bakverkja. Hef nokkrum sinnum sofið í svona rúmi hjá Nonna og Berglindi, misjafnt hverjir bólfélagarnir hafa verið. Síðast var það Berglind eftir áramótapartýið þeirra. Ég rak Hjört á pöbbinn með Nonna svo ég gæti farið að sofa í rúminu og væri sofnuð þegar þeir kæmu heim (ekki hægt að reka mig þaðan...). Þeir höfðu samt alveg svefnstað sko. Þar síðast voru félagarnir Hjörtur og Nonni. Þá var Berglind í Noregi og við fengum að gista eftir e-ð djamm (já, dýr bíllinn upp í Mosó) og við drifum okkur heim á undan Nonna til að ná rúminu (maður leggur mikið á sig til að sofa í góðu rúmi). En Nonni var ekkert að hika við að troða sér á milli þegar hann kom heim - og við erum að tala um rúm sem er 153 cm á breidd. Samt var það bara voða notó :)

Afmæli í kvöld. Snemma heim að sofa í nýja rúminu. Eða ekki.

mánudagur, janúar 15, 2007

Ragnhildur pragnhildur

Ragnhildur er búin að fá sér nýtt blogg og ég tók þennan leik þaðan:

1. Hver ert þú?
2. Erum við vinir?
3. Hvenær hittumst við fyrst og hvernig?
4. Ertu hrifin/nn af mér?
5. Langar þig að kyssa mig?
6. Láttu mig hafa gælunafn og útskýrðu afhverju þú valdir það.!
7. Lýstu mér í einu orði.!
8. Hvernig leist þér á mig þegar þú sást mig fyrst?
9. Lýst þér ennþá þannig á mig?
10. Hvað minnir þig á mig?
11. Ef þú gætir gefið mér eitthvað hvað myndi það vera?
12. Hversu vel þekkiru mig?
13. Hvenær sástu mig síðast?
14. Hefur þig einhvern tímann langað til að segja mér eitthvað en ekki getað það?
15. Ætlaru að setja þetta á bloggið þitt svo ég geti skrifað um þig?
Jæja Ragnhildur, nú geturðu svarað :) Hlakka til að lesa.

miðvikudagur, janúar 10, 2007

70%

Langar í 70% súkkulaði frá Síríus.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Rangeygð, föl með frunsu!!

Rosalega er ég föl og lít illa út. Verð að fara að tapa mér í brúnkukreminu. Ofan á allt annað vaknaði ég með enn eina frunsuna í gærmorgun!!! Ekki par sátt við það og held ég hafi talið rétt að þetta sé frunsa nr. 10 síðan í maí (í Tælandi)!! Ég var svo pirruð að ég hringdi í lækninn minn en fékk ekki símatíma við hann svo ég fékk tíma hjá örugglega svona læknakandídat (heitir það ekki svoleiðis?). Skrýtið þegar læknarnir eru orðnir jafn gamlir manni, jafnvel yngri. Nema hvað að hún sagði mér það sem ég vissi, að það væri ekkert hægt að gera þegar frunsan er komin. En ég ætlaði að fá hana til að skrifa upp á Zovir töflur fyrir mig, þar sem þessi krem virka akkúrat ekki neitt. Hún sagði að það væru ekki til neinar Zovir töflur (sem er ekki rétt) og skrifaði fyrir mig upp á töflur sem kynfæraherpes sjúklingar taka að staðaldri til að fyrirbyggja að fá frunsur. Öss, ég nenni nú ekki að kaupa þessa töflur, frunsan er komin og þegar ég yrði búin með skammtinn gæti ég alveg eins fengið nýja frunsu strax aftur. Ég þarf að redda mér þessum Zovir töflum og það strax.

Í gær fórum við frunsan að hreinsa jólatré í Mosfellsbæ. Þetta var fjárölfun fyrir handboltann og var nú bara æði. 5 stiga frost, alveg logn og heiðskýrt og svo bara rölt um og jólatrjánum hent upp á bíl. Þetta þyrfti eiginlega að vera fyrir jól, maður komst í smá jólaskap :) En það var sennilega líka af því það var smá snjór yfir öllu og maður komst ekki hjá jólatrjáailminum. Skrýtið hvernig snjórinn kemur alltaf strax eftir jól.

Nú verð ég að fara að fá mér gleraugu. Ég er orðin rangeygð í lok vinnudagsins, sit allan daginn með pírð augun og að drepast úr þreytu í þeim. Ég veit líka alveg hvernig gleraugu mig langar í, held samt að þau séu frekar dýr en þau eru samt í búðinni sem er í Leifsstöð. Fæ einhvern til að pikka þau upp þar fyrir mig ef ég fæ mér þau. Ég er jú búin að gefa út þá yfirlýsingu að ég fari ekkert þar um á þessu ári svo ekki get ég sótt þau sjálf.

Ætla að bjóða Nonna og þeim í mat í kvöld. Sýna þeim frunsuna. Berglind er á Reykjalundi og sefur þar á virkum dögum, nema miðvikudögum. Það hlýtur að vera hriiiikalega leiðinlegt svo ég ákvað að vera sniðug og bjóða þeim að hittast í mat hjá okkur, svo fara þau bara sína leið eftir það - Berglind aftur í fangelsið (verður að vera komin fyrir kl. 22, eins gott að háma) og Nonni og strákarnir aftur í Hafnarfjörðinn. Spurning um Mexikóskt kjúklingalasagne??

Annað hef ég voða lítið að segja. Er að hugsa um að fara bara á klóið (nú verður Hjörtur brjálaður).

Leiiiiiiter.

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Gleðilegt ár!!

Ég get varla komið með annál því ég man bara ekki meir. Hvernig man fólk hvað það gerði í janúar, svo ferbrúar, þá í mars o.s.frv.? Ég man bara hvað ég gerði í desember!!
Þetta var þó ár nokkurra utanlandsferða sem ég man vel eftir. Fór með Berglindi til Tælands í maí, fjölskyldunni til Danmerkur í júní og með Hirti aftur til DK í byrjun sept, þar sem langþráður draumur okkar hjóna rættist og sáum Rolling Stones á sviði. Ekki skemmdi fyrir að þeir voru að spila í okkar heimabæ Horsens. Með okkur á tónleikana fór frábær hópur héðan og þaðan sem spillti heldur ekki. Já – og gleymdi næstum (ekki af því það var svo leiðinlegt) Færeyjarferð í október, árshátið með vinnunni hans Hjartar.
Á árinu keyptum við okkur lóð í Leirvogstungu eftir stórar yfirlýsingar um að vilja ekki flytja þangað – allt of langt að fara. En svona grípa örlögin inn í. Nú verður bara sett í fluggírinn og einu stykki húsi hent upp á mettíma... eða ekki.
Held að næsta ár verði ekki ár utanlandsferða. Sennilega alveg án slíkra ferða. Stefnan var tekin á Italy 2007 – ferð sem átti að verða (og verður hjá þeim sem fara) ógleymanleg. Þeir draumar hrundu sama dag og við skrifuðum undir kaupsamning á Kvíslatungu 82. Við Hjörtur forðuðumst að ræða ferðina í nokkra daga þar til við urðum bara að viðurkenna að við gætum ekki gert hvort tveggja. Vonandi býðst annað eins tækifæri seinna.
Ragnhildur stóð sig vel á öllum sviðum eins og henni er einni lagið. Áhuginn í botni í handboltanum og hefur mjög gaman af fiðlunni þó hún sé ansi löt að æfa sig heima. Finnur alltaf e-ð sem er mikilvægara fyrst. Gott áramótaheit fyrir hana að bæta sig í því. Fór í samræmd próf í skólanum og rúllaði þeim upp. Sérstaklega stærðfræðinni.
Hrafn byrjaði í íþróttaskólanum á árinu og fékk hann gjörsamlega á heilann. Á hverjum degi fær maður að heyra að hann sé að fara í íþróttaálfaskólann á laugardaginn – en hann er búinn að vera í fríi allan desember og byrjar aftur um miðjan jan. Verst fyrir okkur hin að tímarnir eru kl. 9 á laugardagsmorgnum!! Ókristilegt í meira lagi.

Jamm, þetta er það sem stendur upp úr frá árinu svei mér þá. Og auðvitað áramótapartýið hjá Nonna og Berglindi. Skoðið endilega myndirnar hennar Auðar úr því.

Blefs