þriðjudagur, október 31, 2006

Karen og krummarnir

Haldiði að ég hafi ekki fundið hana Karen frænku á YouTube. Við erum systradætur.

mánudagur, október 30, 2006

Nýtt lúkk

Var í klippingu. Klippikonan mín var að koma af sýningu í London og ég er því klippt eftir nýjustu tísku - létt að aftan og þungt fram. Skiluru?

Mér finnst samt alltaf pínu erfitt að venjast svona nýjum klippingum, bæði útlitslega og greiðslulega. Átti ágætlega auðvelt með að ráða við síðustu klippingu en hef á tilfinningunni að ég eigi ekki eins auðvelt með að ráða við þessa. Kemur í ljós. Kannski rýkur bjútístuðullinn upp með þessari??

Svo var Elsa vinkona að skíra snúðinn sinn - hann heitir Bergur. Finnst ykkur það ekki fallegt nafn? Mér.

föstudagur, október 27, 2006

Hvalabrjálæðið

Er að hlusta á umræður um hvalveiðarnar í útvarpinu. Nenni yfirleitt ekki að spá í svona málum - finnst þau frekar leiðinleg, en ég skil samt ekki af hverju það má ekki veiða hvali eins og önnur dýr sem eru veidd. Mér skilst að þeir séu ekki í útrýmingarhættu og skil ekki þessar heitu tilfinningar sem útlendingar bera til hvala. Þetta jaðrar við geðveiki svei mér þá. Það er ekki verið að tala um að skjóta hundana þeirra eða önnur heimilisdýr - heldur hvali.

Ég hef farið í hvalaskoðun nokkrum sinnum og það var mjög gaman. Það má samt alveg veiða þessi dýr fyrir mér. Óþarfi kannski að gera það við hliðina á hvalaskoðunarskipunum eða alveg upp við ströndina, en halda þeir sig ekki einhversstaðar annarsstaðar líka?? Eða hvernig er það? Eru þeir bara að þvælast hér við strendurnar þar sem túristarnir eru að skoða þá?

Það er mér alls ekkert hjartans mál að hvalir séu veiddir samt. Skil alveg sjónarmið þeirra sem eru á móti hvalveiðum. Þetta er til dæmis mjög heitt mál fyrir Sigga frænda, m.a. út af verkefninu WOW (Whale (watching) on wheels) sem er mjög sniðugt og örugglega skemmtilegt.

Búin að kaupa fyrstu jólagjöfina. Keypti hana á netinu og held að hún eigi eftir að slá í gegn. Ætla samt ekki að segja hver fær hana og frá hverjum hún er. Þarf nefnilega ekki að vera frá mér þó ég hafi keypt hana. Ta ta ta tammm.

miðvikudagur, október 25, 2006

jul 2006

Er að komast í smá jólagír - þarf að fara að byrja á jólagjöfunum og er búin að kaupa jólapappír (hann er alltaf uppseldur þegar ég tek við mér svo ég kippti honum með í IKEA).

Langar í nýtt stórt og breitt borðstofuborð fyrir jól. Veit meira að segja í hvaða borð mig langar en það kostar svo marga þúsundkalla.

þriðjudagur, október 24, 2006

Tiltekt

Var að taka smá til - allt í einu var hliðarsúlan komin aftur upp og ég uppfærði aðeins bloggarana í henni. Þarf samt kannski að bæta e-m þar inn. Man ekki hverjum í augnablikinu.

Færeyjar voru frábærar. Gaman að koma þangað og vel heppnuð ferð. Svolítið eins og að fara út á land - alveg eins landslag og hér en svei mér þá ef það er ekki meira rok þar. Jess - get yljað mér við þá hugsun í vetur.
Ég er strax farin að kvíða (og finna fyrir) vetrinum - eða kuldanum frekar. Skil ekki hvernig það varð að ég fæddist á Íslandi, kuldaskræfan sem ég er. Þessi umræða kom einmitt upp um daginn heima hjá móðurbróður mínum sem er greinilega kuldaskræfa eins og ég - getur ekki sofið við opinn glugga. En þarna er munurinn á körlum og konum - konan hans er búin að kenna honum að sofa við opinn glugga en ég er búin að kenna Hirti að sofa við lokaðan glugga. Frændi er að vinna mikið að heiman og Hjörtur fór að heiman í ár að vinna - ætli það sé gluggamál?? Mistery.


Blefs í bili.

00.03

Meik'ekki að klukkan sé 00.03!!!!

fimmtudagur, október 19, 2006

Nýr samafmælingur.

Nú þarf ég að fara að undirbúa Færeyjaferðina - enda brottför á morgun. Ætla að strauja kjólinn en taka líka með mér straujárn. Sækja sokkabuxur til Bjargar. Láta Nanný plokka mig og lita. Ákveða hvaða föt ég ætla að taka önnur en kjólinn. Pakka þeim niður. Finna leið til að láta frunsu hverfa á sólarhring. Allavega tveimur. Taka til. Þrífa. Fara í saumó.

Ég var í heilsufarsmælingu áðan í vinnunni. Haldiði að hjúkkan sem gerði mælinguna hafi ekki verið fædd sama dag og ég!?! Sama ár og næstum því klukkan það sama. Ég veit reyndar ekki alveg kl. hvað ég fæddist en það var um hádegisbil og hún fæddist kl. 12.05. Gaman!!! Hún þekkir aðra sem er fædd sama dag og við sem var með henni í handbolta í gamla daga og þær heita báðar Margrét!! Mér finnst allt svona svo merkilegt því það er ekki langt síðan ég kynntist fyrsta samafmælingi mínum honum Óskari sem ég vann með hér á VST og er landfræðingur eins og Hjörtur. En hann er ekki fæddur sama ár og við Margrétarnar. Þessi hin Margrét er fótboltastelpa og er (eða var) í landsliðinu. Vóó hvað maður kemst að mörgu á stuttum tíma.

Flatkökur og hangikjöt í hádegismat. Naammmmm mér finnst það svo gott.

p.s. er enginn sem kann að laga þetta á síðunni til hægri, ef þið skrollið niður þá sjáið þið það sem á að vera hér uppi - hvernig fæ ég það aftur upp?

miðvikudagur, október 18, 2006

Frunsuandskoti

Komin með frunsu - held það sé stress :(

þriðjudagur, október 17, 2006

Stjörnuspeki

Þessir einstaklingar eiga sama afmælisdag og ég:

50 Cent, listamaður, tónskáld
Jennifer Saunders, leikkona & grínisti
Sigurður Sigurjónsson, leikari, Spaugstofumaður
Nanci Griffith, söngkona & lagahöfundur
George W. Bush, forseti USA
Sylvester Stallone, leikari, Rocky
Dalai Lama, trúarleiðtogi
Nancy Reagan, fyrrv. forsetafrú
Mis stolt af samafmælisdagsfólki mínu.
Ég var að prenta út stjörnukort fyrir Ragnhildi af mbl.is (hér) og það er bara soldið gaman að skoða þetta. Ég þarf að finna fæðingartímann hans Hrafns þegar ég kem heim svo ég geti gert líka fyrir hann. Held ég hafi munað Ragnhildar rétt. Hún er rísandi Krabbi - sem útskýrir nú ýmislegt :D nei djók. Margt af þessu fannst mér ég geta verið að lesa um sjálfa mig - væri gaman að fá svona kort líka fyrir mig og bera saman. Þarf að komast að fæðingartíma mínum.
Eitt sem stakk mig var að í kortinu hennar stendur: "Hefur flottan stíl í klæðaburði..." Sitt sýnist hverjum - eins og Anna Rut sagði þegar ég ætlaði að fara að rengja stjörnukortið vegna þessarar fullyrðingar :D En eins og þið kannski vitið erum við Ragnhildur mjög svo ósammála um hvað er flottur klæðaburður.

mánudagur, október 16, 2006

Börn

Helgin - algjör afslöppun. Sofnaði fyrir kl. 11 á föstud. og laugard enda Ragnhildur að keppa alla helgina. Hún var frekar þreytt í gærkvöldi eftir stressið held ég, frekar en átökin - var að keppa með flokknum fyrir ofan sig og leist ekki á blikuna þegar þær voru komnar í úrslitaleikina. En hafði að sjálfsögðu mjög gaman af þessu og stóð sig eins og hetja. Þær lentu í 2. sæti (b-liðið) og A liðið í 4. Stórglæsilegt. Kristinn frændi hennar var líka að keppa og þeir stóðu sig stórvel líka strákarnir.

Við Hjörtur fórum í bíó í gærkvöldi. Fór að sjá Börn og mæli með henni - en verið snögg ef þið ætlið að sjá hana því hún fer að hætta held ég. Tek alveg undir góðu dómana sem hún hefur fengið, veit ekki hvort hún hefur fengið e-a slæma.

Vikan - nóg að gera. Í kvöld ætla ég að undirbúa fötin sem ég ætla að hafa með út. Þriðjudagur: ekki fundur á morgun (jess, hentar vel núna) og þyrfti eiginlega að byrja að pakka. Á miðvikudaginn er bikarleikur við Fylki, átaksnámskeiðið, stjórnarfundur eftir leikinn og foreldrafundur hjá flokknum hennar Ragnhildar hálftíma seinna. Allt þetta á tímabilinu 19-21.30. Á fimmtudaginn ætlar Nanný að plokka og lita á mér augabrúnirnar og það er saumó sem ég hef ekki komist í síðan í vor - VERÐ að mæta! Nýplokkuð og fín. Eftir saumó: Sjæna Hjört fyrir Færeyinginn 2006. Á föstudaginn ætla ég að koma krökkunum í skólann/leikskólann, klára að pakka fyrir ferðina og upp á Reykjavíkurvöll kl. 12.

Skrýtið að ég sinni leikfiminni lítið - en verð að taka mig á í þeim málum!! Er ekkert búin að fara síðan á miðvikudaginn og ÆTLA í dag og á morgun. Ætli ég fari ekki bara í vigtunina á miðvikudaginn - nota hálfleikinn í það :) En reyni kannski að fara í salinn fyrir leik.

Næsta helgi - Færeyjar, árshátíð Línuhönnunar. Verið að útfæra keppnisútlitið í Færeyingnum 2006, sem er yfirvarakeggskeppni í vinnunni hjá Hirti. Hugmyndir??

Eins og sést á titlinum (Börn) ætlaði ég bara að mæla með myndinni í þessu bloggi en nú er ég líka búin að skipuleggja vikuna. Two in one.

föstudagur, október 13, 2006

Getur einhver...

...hjálpað mér að laga þetta á síðunni til hægri. Ég skil ekki hvernig þetta slapp svona niður en ég kann ekkert að laga þetta. Nenni ekki að fikta e-ð og skemma allt.

Mér finnst ég farin að tapa dirfskunni þegar kemur að tölvum. Er farin að standa mig oftar og oftar að því að geta ekki gert e-ð og nenna ekki að setja mig inn í hlutina og bið þá Ragnhildi um að redda því. Aldurinn - ekki spurning.

Ég hef aldrei verið neitt upptekin af aldrinum og hélt ég yrði það seint. En nú hef ég tekið eftir nokkrum ellimerkjum síðan í sumar og þá tek ég þau voða nærri mér. Ég var samt ekki orðin þrítug þegar Heimilislæknirinn greindi mig með elliglöp.

Ég er alveg að fá Hjört í málningargírinn og þá verður græna húsið málað! Alveg langar mig að fara heim til pjakksins sem blandaði fyrir mig málninguna á sínum tíma og mála allt húsið hans - að innan sem utan. Og sjá svo hvort honum verði ekki orðið flökurt eftir nokkra daga.

Spurning samt hvernig ég á að mála. Núna langar mig bara í hvítt!! Er svo hrædd um að fá e-n velgjulit og halda áfram með ógleðina ef ég kaupi ekki bara alveg hreint hvítt. En samt sé ég ekki alveg fyrir mér stofuna alveg hvíta, mér finnst hún nógu tómleg fyrir. Vantar 1-2 stór og flott málverk á veggina og þá er það komið. En þau eru ekkert á leiðinni í hús. Anyone??

fimmtudagur, október 12, 2006

Búin að jafna mig

Jæja - ég jafnaði mig á veseninu með síðasta blogg, enda með eindæmum geðgóð *hóst*

En ég ætla ekki að deila með ykkur pælingunum sem voru komnar niður á blað - svekkjandi samt því þetta voru djúp og skemmtileg skrif. En svona er það þegar guðirnir grípa í taumana.

Ég ákvað samt að koma sterk inn aftur þegar ég rakst á þessa þrífara hjá Bagglút og varð að deila þeim með ykkur. Hahaha - fyndnast finnst mér hvað Kristinn H. er líkur Fabio - aldrei þótt Fabio huggulegur maður. Of svona kellingalegur e-ð fyrir minn smekk og bara eiginlega ógeðslega ljótur. Ahaha sjáið svo Gunnar Birgis og Shrek... bara fyndið.

Að lokum vil ég svo hvetja alla til að skella sér norður á Strandir um helgina. Siggi frænds er kominn í úrlsit í karókí keppni og ég get lofað frábærri skemmtun. Fullt af tilboðum... Ég færi ef Ragnhildur væri ekki að keppa alla helgina. Og þá erum við að tala um ALLA helgina, föstudagskvöld, laugardagsmorgun (fram eftir degi) og sunnudagsmorgun. Hver skipulagði mótið eiginlega?? Allavega ekki Strandamaður, það er á hreinu.

copy - paste

Næst þegar ég blogga: Skrifa í word og kópera hingað yfir.

Var búin að skrifa beelaðslega mikið og það bara strokaðist út - kviss bamm búmm. Ekki einu sinni þegar ég var að seiva - heldur bara just like that.

hrmpf.