föstudagur, desember 22, 2006

Afmælisdrengur




Hrafn Elísberg er loksins orðinn þriggja!! Hann var vakinn í morgun með afmælissöngnum og tveimur pökkum og leit þá nokkurns konar svona út. Voða þreyttur. En jafn glaður þegar hann sá hvað var í gangi.
Hann opnaði pakkana og í þeim fyrri, frá Ragnhildi, var bók og geisladiskur. Í þeim seinni, frá okkur öllum, var geislaspilari með míkrófónum. Hann getur því tekið nokkrar aríur þegar hann kemur heim af leikskólanum.
Það var óvenju átakalítið að koma honum í leikskóann því hann var sífellt minntur á hvað beið hans, jú afmælisveislan með tilheyrandi kórónu og fíneríi. Hann gaf sér samt smá tíma á síðustu metrunum til að púsla. Hann fékk púsl frá Emil Gauta og Gústafi Bjarna um daginn og fékk svona líka púsluæði. Sem við foreldrarnir erum mjög ánægð með - loksins fann hann sér e-ð annað til dundurs en að sparka í bolta!

Ég sit annars hér í vinnunni, umkringd jólagjöfinni í ár - ostakörfur í tugatali og þið getið ímyndað ykkur ilminn!! Þetta var svona í gær líka og jesús minn - hausverkurinn!! Enda hætti ég aðeins fyrr, gat ekki meir. Ógeð. Veit ekki hvort ég hef lyst á að borða þetta þegar að því kemur. Verð allavega að geyma það í nokkra daga.

Læt svo aðra mynd fylgja af afmælisbarninu sem lýsir honum betur en myndin að ofan.


fimmtudagur, desember 21, 2006

Afmæli

Hlynur á afmæli í dag. Hann verður 5 ára stór strákur! Hann fær ansi skemmtilegan afmælisdag því árlegt jólaball í húsinu hjá ömmu er haldið í dag og þau frændsystkinin fara saman þangað.

Á morgun á svo Hrafn Elísberg afmæli, hann er reyndar búinn að vera þriggja ára síðan í ágúst þegar Anna Katrín átti afmæli - en þá verður þetta bara eins og fermingin, staðfesting á aldrinum. Jamm - verð að muna að kaupa eplaskífur í dag!!

Við ætlum að setja upp jólatréð seinni partinn og skreyta það í kvöld. Ég er reyndar að fara að hitta stelpurnar - Hrönn er í jólafríi frá Þýskalandi. En kannski stoppa ég í styttri kantinum til að ná nú að klára að skreyta tréð og undirbúa morgundaginn. Nefnilega margt sem þarf að gerast á morgun...

Í gær fór ég á kaffihús. Saumóinn var með pakkaruglið sitt þar - æðislega gaman. Ég fékk geggjað dót undir heitt. Það er svona segull svo hann festist við botninn á pottum og þá færist það bara með ef maður þarf að færa pottinn. Sniðugt!!?!??!!!
Svo dró Berglind upp Mac snyrtivörurnar og ég fékk mér mascara, tvo gloss og ógeðslega ljótan varalit/blautan augnskugga. Maður sá bara ekkert þarna í myrkrinu en sá um leið og ég kom heim að hann var ekki my cup of tea.
Svanni pizza, nágranni okkar, sat hjá Hirti þegar ég kom heim af kaffihúsinu. Þeir voru í jólabjórsmökkun. Búnir að testa Egils og Víking þegar ég kom og skveruðu í sig einum Tuborg í lokin. Eina niðurstaðan sem þeir komust að var að Tuborg væri bragðmestur og að þeir hefðu drukkið þá í réttri röð.

Já, þá er ég búin að rausa smá - en á að vera að vinna. Veit ekki alveg til hvers þetta blogg var, langaði bara ekki að hafa þessa mynd efst.

En GLEÐILEG JÓL allir ef ég blogga ekki fyrir jól.

p.s. er búin að kaupa gjöfina handa Hirti og hún verður keyrð heim í vörubíl kl. 5.45 á aðfangadag - ekki segja.

mánudagur, desember 18, 2006

Er Hjörtur sætari en ég?

Your Guy Is About As Pretty As You!

While your guy isn't straight out of GQ, he's a bit of a pretty boy.
And he enjoys an indie movie from time to time... so what?
You've got the best of both worlds, girlfriend - a manly guy who understands women.
Just make sure that he spends more on your dates than the salon.

sunnudagur, desember 17, 2006

Strandir.is

Það er greinilega nauðsynlegt að hafa þennan vef í favorites og skoða hann reglulega. Ragnhildur hlakkar mikið til að hringja í jólasveinana á morgun en er ekki alveg viss hvort hún þori að tala :)

Góða nótt!

föstudagur, desember 15, 2006

Jólakort

Ég pantaði jólakort á netinu í fyrradag, á Hans Petersen. Ég hafði um þrennt að velja til að fá þau í hendurnar, fá þau send heim (3 virkir dagar), sækja þau (2 sólarhringar) eða sækja þau á Laugarveg 178 (1 sólarhringur). Af því ég er alltaf á síðustu stundu ákvað ég að gera það.

Þegar ég kom í gær að sækja myndirnar tók á móti mér voða e-ð slísí gaur sem leitaði og leitaði að myndunum þangað til hann spurði hvenær ég hefði pantað þær, sem ég sagði honum.
"Nei, þá eru þær ekki tilbúnar fyrr en í fyrsta lagi á morgun, kannski hinn."
"Nú?" svaraði ég með pirr-röddinni "það stóð á heimasíðunni að ef ég kæmi hingað tæki þetta bara sólarhring"
"Já, það er bara búið að hrúgast svo rosalega til okkar pantanirnar að við erum bara alls ekki að komast yfir þetta"

Hafa þeir ekki boðið upp á jólakortaþjónustu í 100 ár?? Kom allt í einu á óvart að fólk er að þessu á síðustu stundu?? Algjör óþarfi að lofa svona og láta svo slísí gaurinn þurfa að taka á móti pirringnum í óánægðum viðskiptavinum. Hugmynd að VR auglýsingu fyrir næsta ár.

fimmtudagur, desember 14, 2006

Jólagetraun

Ég var að hugsa um eplaskífurnar - ætti ég að prófa að baka þær sjálf?

En þá er það getraunin:

Af hverju heita eplaskífur (æbleskiver) eplaskífur þó engin séu eplin í þeim? Og skífur en eru samt hnöttóttar í laginu?

föstudagur, desember 08, 2006

Jólabarn

Hrafn Elísberg er þeirrar ógæfu aðnjótandi að hafa fæðst 22. desember.

Við ákváðum, eftir dræma þátttöku í afmælisveislunni hans í fyrra, að halda upp á afmælið alltaf á fyrsta í aðventu. Fyrrverandi nágranni mágkonu minnar á sama afmælisdag og hann mælti eindregið með þessu fyrirkomulagi. Svona var þetta alltaf gert hjá honum. Þá mundu allir eftir afmælinu og það varð fastur liður í fjölskyldunni að kíkja í aðventukaffi heim til hans.

Við ætlum ekki að gefa honum gjöfina frá okkur fyrr en á afmælisdaginn svo hann fær aftur pakka þá. Ætli ég bjóði ekki upp á danskar eplaskífur og heitt kakó þann daginn - væri það ekki góð hefð? Þá geta aðdáendur eplaskífa kíkt við ef þeir vilja og reynt að afstressa sig fyrir jólin. Og Hrafn fær að eiga sinn afmælisdag.

Þá verða komnir tveir pakkadagar hjá Hrafni og hann skilur ekkert í því af hverju jólin koma aldrei. Hann fékk alltaf að heyra að þegar jólin koma verður hann þriggja. Hann beið þess vegna allan síðasta sunnudag eftir því að jólin kæmu.
„Nú þurfum við að klæða okkur því gestirnir fara að koma“
„Koma þá jólin?“
Nokkrar útfærslur af þessu samtali áttu sér stað þann daginn. En aldrei komu jólin. Og eru ekki enn komin.

En þau koma.

fimmtudagur, desember 07, 2006

Tónlistargetraun

Einu sinni var Sævar með svo skemmtilegar tónlistargetraunir þar sem hann gaf tóndæmi. Ég reyndar gat aldrei neitt í þeim en hugmyndin var góð.

Mín tónlistargetraun er ekki með tóndæmi heldur spyr ég - við hvaða lag er þessi texti sunginn (útlenska nafnið á laginu) og hvaða ár var það fyrst flutt (upphaflega lagið, s.s. á útlenskunni)?

Af hverju þarf þetta að vera svona?
Ég vil hafa allt eins og var

föstudagur, desember 01, 2006

Ííííííhhaaaaaaa

Það er að koma helgi!! Voða fannst mér þessi vika lengi að líða.

Ég ætla að baka í kvöld - allt kvöld!! Aðventu-afmæliskaffi á sunnudaginn og eins gott að allt verði spikk and span eins og maður segir. Gott að eiga mann með tuskuæði svo maður geti einbeitt sér að veitingunum. Það er jólahlaðborð í vinnunni hjá mér í kvöld sem ég sleppti. Maður getur ekki gert allt!

Gaman að Auður er farin að blogga aftur, minnkaði um helming bloggunum sem ég gat fylgst með þegar hún datt út. Ég þekki voða fáa virka bloggara en er samt með nokkur í favorites sem ég skoða og brosi þegar ný færsla kemur. Nauðsynlegt að geta fylgst með. Stór dagur hjá Auði á morgun, veit henni á eftir að ganga vel.

Já og svo er annað blogg sem ég fylgist með og uppfærist mis-reglulega - þ.e. þeirra Hildar og Stebba. Eða aðallega Hildar :) Og það var ekki lítið skemmtilegt um að vera á þeirri síðu um daginn. Þau nefnilega tóku sig til og giftu sig - öllum að óvörum. Úti í Þrándheimi. Við Hjörtur fórum í leikhús síðasta föstudag og settum símann auðvitað á silent. Þegar við komum út beið sms frá Stebba - bara að láta vita. Vííí gaman að því.

Jæja, vonandi má ég fara að sækja Hjört, langar að komast heim í baksturinn.