miðvikudagur, maí 30, 2007

Kárahnjúkar

Ég bara skil ekki hvernig við íslendingar náum að horfa fram hjá svona ómanneskjulegri framkomu við fólk í okkar landi eins og er að gerast í vinnubúðunum á Kárahnjúkum og auðvitað miklu víðar. Ég skil ekki að þeir íslendingar sem vinna þarna og verða vitni að þessu öllu séu ekki háværari. Hvar eru Kastljós og Kompás búnir að vera allan þennan tíma? Ég hef allavega ekki orðið vör við nema smáfréttir af þessum málum. Þessi stelpa er þó að bakka upp sögur Portúgalans, húrra fyrir henni! Þora ekki fleiri?

Ég hef heyrt alls konar réttlætingar á viðbjóðnum sem útlendingar hér búa við en ég bara skil ekki hvernig er hægt að horfa upp á annað fólk (sama hverrar þjóðar það er) búa við lélegar aðstæður í landi þar sem heimamenn velta fyrir sér á sunnudegi hvort þeir eigi að velja að fara til London næstu helgi eða kaupa sér flatskjá. Gera svo sennilega bæði. Bíða kannski með flatskjáinn fram á næsta visa-tímabil eða kaupa hann í fríhöfninni.

Svo sitja allir (sumir) við sínar tölvur og pirrast á þessu og gera ekki neitt. Eins og ég. Enda veit ég ekkert hvað ég ætti að gera annað.

mánudagur, maí 28, 2007

Heilapróf og Suðurnesin

Mér finnst voða gaman að taka alls konar próf á netinu, ef þau taka ekki allt of langan tíma. Ég tók þetta áðan og niðurstaðan var þessi:

Klara, you are Left-brained

Most left-brained people like you feel at ease in situations requiring verbal ability, attention to detail, and linear, analytical ability. Whether you know it or not, you are a much stronger written communicator than many, able to get your ideas across better than others. It's also likely that you are methodical and efficient at many things that you do. You could also be good at math, particularly algebra, which is based on very strict rules that make sense to your logical mind.


Svo var hægt að kaupa nánari niðurstöður. Soldið skondið að lesa þetta, ætli það sé tilviljun hversu vel þetta passar?

Við fórum í Sandgerði í dag. Þetta var þriðja ferðin okkar á Suðurnesin gagngert til að skoða klæðningar. Við erum loksins búin að ákveða klæðningu eftir langa umhugsun - erum ekki þau sneggstu í að taka ákvarðanir yfir höfuð, hvað þá þegar svona mikið liggur við.
Við réttlættum þessa ferð með því að fara í sund í leiðinni. Það er voða skemmtileg sundlaug í Keflavík, mæli með henni fyrir litla kroppa. Kíktum síðan í kaffi til Hrafnhildar móðu sem bauð upp á vöfflur. Ekki slæmt það og allt var étið upp til agna.

Stutt vinnuvika fram undan og svo styttist bara í sumarið.

miðvikudagur, maí 23, 2007

Eina ferðina enn

Hrafn er heima veikur. Ég skil ekki hvað hann verður oft veikur barnið. Á kannski ekki að kvarta miðað við suma - samt smá.
Við ætlum því að eyða deginum í videogláp og kósýheit. Harry Potter kominn í tækið, sem Hrafn kann utan að. Svo er ég að vona að einhver heimavinnandi kíki í smá kaffi :) Mér getur leiðst voðalega að hanga svona heima þó sonur minn sé nú ágætis félagsskapur yfirleitt...
Svo sé ég til þegar Hjörtur kemur heim úr sinni vinnu hvort ég fari í mína. Það þýðir þá að Hjörtur þarf að fara á tónleika og bekkjarkvöld hjá Ragnhildi á sama tíma og leikurinn er (hehe, verður vinsælt!) Ég giska á að ef svo fer sendi hann mömmu sína í það prógramm. Sjáum til.

Annars voða lítið merkilegt. Ég bíð bara eftir sumrinu en eins og skáldið sagði virðist biðin ætla að verða löng og ströng. Þetta er bara ekki hægt. Einhverntiman heyrði ég að back in the old (sko - old old) hefði átt að flytja alla íslendinga (sem hafa hlaupið á tugum einstaklinga örugglega) á mitt Jótland því hér þótti ekki búandi. Ef þetta er rétt eru það mestu mistök íslendinga að hætta við það. Það verður allavega aðeins hlýrra og sumarið er aðeins lengra þar en hér. Brrrr. Kannski fæddist ég bara á vitlausum stað.

Þunglyndisbloggi lokið. Næsta verður léttlyndis.

laugardagur, maí 19, 2007

Grænir fingur

Í vinnunni minni er reynt að gera huggulegt með blómum. Sem var auðvitað voðalega huggulegt þangað til ég var beðin um að hugsa um þau. Konan sem bað mig um það hefur greinilega ekki séð þetta eina vesæla blóm í gluggakistunni heima hjá mér. Já, eitt vesælt blóm sem ég næ ekki einu sinni að halda lífi í. Það deyr og lifnar við til skiptis. Til allrar lukku eru flest blómin í vinnunni harðgerð og þola mig því þokkalega. Sum eru orðin e-ð vesæl og leið en flest fíla mig vel.

Ég settist út á pall í fyrsta skipti í gær. Það var komið sumar!! Krakkarnir á móti kíktu og Hjörtur bauð upp á bjór. Já, sumarið var komið. Samt var um 5 stiga hiti gæti ég trúað :Þ En sólin skein og yljaði okkur.

Sólin er ekkert að fela sig í dag heldur, heyrist á Hirti ferðinni heitið upp á lóð. Fyrsta ferð af örugglega mörgum næstu mánuðina.

Blefs í bili...

mánudagur, maí 14, 2007

X-?

Ég hef aldrei verið í jafn miklum vafa hvað ég ætti að kjósa eins og núna. Mér fannst enginn flokkur ná að sannfæra mig alveg um ágæti sitt í þetta skiptið og þó ég hafi alltaf kosið það sama er ég komin með svo nóg af græðginni sem mér finnst allir svo gegnsýrðir af. Svo var þetta nú smá uppreisn gegn Hirti, þykist blár í gegn en átti e-ð erfitt með að rökstyðja sitt val ;)
Rétt áður en ég hélt á kjörstað (í sparifötunum auðvitað) tók ég því rúnt um vefsíður flokkanna, skoðaði einn málaflokk sem skiptir mig miklu máli og bar saman. Ég lét svo þann málaflokk ráða valinu í þetta sinn.

Ég vildi annars að Sjálfstæðisflokkurinn losaði sig við Framsókn. Alveg komin með nóg af þeirra eilífa poti með minnkandi fylgi. Skil ekki að þeir hafi geð í sér að gera okkur þetta.


En nóg um það.

Getraun dagsins:


Hvað heitir þetta dýr?

föstudagur, maí 04, 2007

Heroes

Var að skella á Hjört, hann stóð þarna á toppnum as we spoke.



Þau lögðu af stað kl. 5 í morgun og hann hringdi 14.40, þá kominn á toppinn. Útsýnið er víst magnað - veðrið eins og best verður á kosið og allt voða vel heppnað. Gaman að því.
Ragnhildur var ekkert lítið stolt að heyra að pabbi sinn hefði komist á toppinn :) Bjóst kannski alveg eins við ekki - hún er jú nýbúin að læra hvað er hæsta fjall Íslands og hversu hátt það er.

Kósý kvöld hjá okkur krökkunum í kvöld - pizza og video. Er það ekki þannig þegar húsbóndinn er í burtu??