laugardagur, júní 19, 2004

Útskrift

Hjörtur útskrifaðist í gær. Nenni ekki að skrifa núna, segi betur frá því seinna... pakki pakki pakk.

fimmtudagur, júní 17, 2004

Gangi Hirti vel

Nú er Hjörtur að fara í próf eftir rúman hálftíma. Kannski síðasta prófið á ferlinum?? Nema hann fari í læknisfræði eftir nokkur ár.

miðvikudagur, júní 16, 2004

Humar

Hvenær er Humarhátíð á Hornafirði??

Reykingabann í DK?

Það kom mér á óvart að 80% danskra ungmenna á aldrinum 16-20 ára vilja reykingabann á veitinga- og kaffihúsum. Þetta reykingaæði dana minnkar þá kannski með þeirri kynslóð.
Skynsöm kynslóð það. Þegar hún kemst til valda marsera danir kannski í takt við aðrar þjóðir og hætta að lækka áfengi og tóbak??

þriðjudagur, júní 15, 2004

12

Já og tólfta jólagjöfin komin í hús ;) Jii hvað ég hlakka til í desember, ekkert nema prófstress!!

Vi er røde - vi er hvide

Mér fannst nú að danirnir hefðu átt að vinna þennan leik í gær. Það er samt svona íslenskt fótbolta syndrom í mér að vera rosalega sátt við jafntefli, eiginlega bara þakklát. En svo talaði Hjörtur mig til og ég var bara alveg sammála, danirnir áttu að vinna!!

Hver hefur sinn djöful að draga, verst hvað djöfull Þjóðverja er langlífur. Þegar ég var í Guatemala voru krakkar þar frá Þýskalandi og Belgíu ásamt öðrum þjóðum og í lok ársins komum við saman og áttum m.a. að segja hvað við höfðum lært mest á þessu ári. Flestir lærðu e-ð af menningunni í Guatemala en það sem Belgunum fannst standa upp úr var að þeir komust að því að Þjóðverjar væru ekki allir slæmir!! Hvað ætli hafi staðið í skólabókunum hjá þeim?? En þegar maður finnur veikan blett á andstæðingnum, af hverju ekki að nudda aðeins fastar í hann? Kannski tekur maður hann á taugum og vinnur leikinn...?

sunnudagur, júní 13, 2004

Sjónvarpstískan

Sjónvarpið okkar er komið til ára sinna. Mamma og pabbi keyptu það fyrir ca 12 árum síðan og við erfðum það þegar þau fluttu til DK. En það er stórgott. En nú er takkinn orðinn þreyttur, á júróvisjóndaginn kveikti ég á því og þá gaf takkinn eftir, hann fer inn með puttanum en fylgir honum svo aftur út. Það þarf því annað hvort einn að standa upp við tækið og halda takkanum inni eða - eins og við gerðum - teipa takkann niður og við settum þar að auki tannstöngul á milli takka og sjónvarps til að hafa tvöfalda tryggingu.
En s.s. þegar þetta gerðist fóru í gang vangaveltur um að kaupa nýtt sjónvarp áður en við förum heim. Þá komst ég að því að tískusveiflurnar í sjónvörpum fylgja ekki mínum smekk. Í fyrsta lagi vil ég ekki grátt sjónvarp eins og er nánast eingöngu hægt að fá núna, ég vil svart. Í öðru lagi skil ég ekki þetta með widescreen sjónvörpin. Allt sjónvarpsefni er miðað við 4:3 en ekki 16:9. Fréttamennirnir verða því teygðir, feitir og asnalegir þegar þeir eru teknir úr sínum eðlilegu hlutföllum. Ef maður lætur svo bíómyndirnar fylla upp í skjáinn á widescreen tapar maður textanum því hann er alltaf settur á svörtu röndina neðst. Ég sé því engan ávinning í því fyrir aðra en enskumælandi fólk og þjóðverja. Ég vil hafa texta.
Það er því held ég bara niðurstaða að láta tannstöngulinn og teipið duga þangað til minn smekkur breytist eða sjónvarpstískan... Annars langar mig mest í skjávarpa og kæmi ekki á óvart ef ég næði því í gegn þegar að sjónvarpskaupum kemur. Sjáum til hvernig gengur að réttlæta það!!

föstudagur, júní 11, 2004

Skyld'avera jólahjól?

Ég er búin að kaupa 11 jólagjafir, geri aðrir betur!!!

Annars er afmæli núna hjá Ragnhildi. Það er held ég ekki alveg að standa undir væntingum hjá henni því það vilja ekki allir leika stoppdans... Þetta eru meiri kellingarnar sem eru með henni í bekk. Ein fékk höfuðverk af því ég spilaði svo hátt tónlistina í pakkaleik. Kommon, þær eru 7!! Það átti bara að vera fútt í þessu, mér fannst þetta langt frá því að vera of hátt. Allavega. Núna eru þær úti í fótbolta með Hirti. Hann varð að fórna sér fyrst stoppdansinn var ekki að slá í gegn.

Jæja, ætla að bera fram ístertuna.

þriðjudagur, júní 08, 2004

Eniga meniga...

...ég á enga peninga.
Samt er ég búin að eyða fullt af þeim í dag. Fórum og keyptum efni í pall og skjólvegg sem við ætlum að taka með okkur heim. Það verður að gera huggó í Grundartanganum. Svo keypti ég útskriftargjöf handa Hirti, langþráð heimabíó. Og núna er Hjörtur á leiðinni að sækja sófann sem við pöntuðum. Ekki oft sem ég fæ í magann yfir að eyða miklu en það er ekki laust við þannig hnút núna. Svo er hægt að réttlæta þetta fyrir sér á ýmsan hátt og Hjörtur er búinn að læra þá list af mér og sagði: "Ef við værum að fara á Paul McCartney kostaði það 1400!!". Ég þarf að þjálfa hann aðeins betur í þessu, mér fannst það allavega ekkert svo góð réttlæting því það var aldrei inn í myndinni að fara. Mamma og pabbi eru aftur á móti að fara á morgun. Ég gerði líka tilraun til að réttlæta þetta: "Þegar við komum heim og erum búin að borga allt upp hugsum við með okkur, djöfullinn af hverju keyptum við ekki pallaefnið? Það var bara 25 þús. kall og okkur hefði ekkert munað um það!" Mun betri réttlæting!??!!

Össi tengdó á afmæli í dag, hann er sextugur!! Og Björg tengdó átti afmæli í gær en hún er bara 35. Til hamingju með það bæði tvö.

Já og svo eitt í viðbót. Hjörtur er búinn að ráða sig sem mælingamann á VST. Hann er ánægður með það auðvitað. Þurfti samt mikla umhugsun því hann verður upp undir ár á Reyðarfirði!! Jú jú, rétt lesið. Hann verður þá í burtu 10 daga og heima í 4. Það verður örugglega leiðinlegt stundum en kannski bara þægilegt stundum. Ég er auðvitað búin að heimta Stöð 2 út á þetta, híhí kröfurnar ekki miklar hjá minni!! En við vitum ekki hvenær hann fer austur, sennilega ekki strax. Ætli hann byrji þá ekki á að vinna í bænum, kannski hleypa hinum landfræðingunum í sumarfrí og svona.

Svo er það bara að byrja að pakka...........

mánudagur, júní 07, 2004

24

Jedúddamía hvað mér finnst gaman að fylgjast með 24. Þriðja serían í gangi en sú fyrsta sem við horum á. Tókum upp síðasta þátt því það var verið að koma börnunum í háttinn þegar hann var og horfðum á hann í gær. En ég sofnaði, alveg búin á því eftir helgina. Búin að vaka óvenju lengi 3 daga í röð, tú möts for mí. Þarf að klára hann í dag. Fínt að serían er á sama stað á Íslandi og hér svo við náum að klára hana þar...

laugardagur, júní 05, 2004

Timbur

Hjörtur átti afmæli í fyrradag!! Ég spurði Ragnhildi nokkrum dögum fyrr hvað við ættum að gera fyrir hann og hún var með það á hreinu: "Við bökum köku og förum á undan honum á fætur. Svo komum við inn í herbergi og vekjum hann með afmælissöngnum og gefum honum köku og pakka." Þá var það ákveðið. Ragnhildur fékk svo símann minn inn til sín áður en hún fór að sofa með vekjarann stilltan á 06.40. Hún átti svo að læðast inn til mín og vekja mig. Hún var svo spennt að hún kom kl. 06.20 og pikkaði í mig. Alltaf gott að fara snemma á fætur :/

Í gær fór ég svo á djammið!! Sem gerist ekki oft, sérstaklega þar sem ég verð svo TIMBRUÐ. Allt drykkjuþol dottið niður og eins gott að fara að vinna markvisst að því að vinna það upp... eða ekki. Gunnþóra var að klára prófin í gær, ég kláraði mín fyrir 3 vikum og Tinna sín fyrir 2 árum. Við urðum auðvitað að halda upp á það og skelltum okkur út. Það var gaman og Gunnþóra tók einn á orðinu sem notaði pikkupplínuna: "Vantar ykkur vinnu?" Hehe. En kannski fær Búddi sumarvinnu út á þetta?? Vonandi.
En ég s.s. er alltaf fyrst til að gefast upp og fór heim á undan stelpunum sem voru í fullu fjöri á dansgólfinu á Crazy Daisy þegar ég yfirgaf samkvæmið. Sorry skvesur. Og ég vaknaði TIMBRUÐ eins og alltaf :( Þoli það ekki. Langt í næsta djamm!!

Jeeees best að fara út að raka garðinn, maður gæti eiginlega kallað þetta engi frekar. Heyskapur...

þriðjudagur, júní 01, 2004

Köngulærnar...

...sem koma í heimsókn til okkar eru sumar svo stórar og viðbjóðslegar. Aðrar eru bara litlar og sætar og alltaf velkomnar en hinar eru óvinir mínir. Ein var að klöngrast upp vegginn áðan og ég ætlaði að ná henni. Er einmitt nýbúin að kaupa svo þykkan og mjúkan klósettpappír og ætlaði að nota tækifærið og kremja hana. Ég þori því nefnilega sjaldnast því ég vil ekki finna fyrir dýrinu sem ég er að drepa. Það er ástæðan fyrir að þessar litlu sætu eru velkomnar, það er ekkert mál að kremja þær með ódýrum tojara. En hún sem sagt datt niður af veggnum og bak við skrifborð áður en ég náði henni. Hún er því ennþá í heimsókn ófétið.

Annars er löng og skemmtileg helgi að baki. Ég ætla nú ekki að fara að þylja það allt upp en gef ykkur smá nasasjón:

Föstudagur: Buðum Árna, Maríu og Andreu Marín í mat. Þær skvísurnar fóru til Íslands á laugardaginn og verða í allt sumar.

Laugardagur: Fórum á völlinn, sáum AGF-Viborg. Hittum Mæju og stelpurnar aðeins en drifum okkur heim því mamma átti afmæli og vorum boðin í afmælisdinner: Nautalund með villisveppasósu. Slurp. Hjössi skellti sér svo á djammið með Árna.

Sunnudagur: Ragna (sem var að vinna með okkur á VST), Maggi maðurinn hennar og Atli sonur þeirra komu í hádegismat. Gaman að hitta þau og synd að hafa ekki gert það oftar. Maður tryggir ekki eftir á. Fórum svo í "óvænt" afmælisveislu til Júlla sem heppnaðist vel. Skelltum í okkur pulsum og bjór en stoppuðum frekar stutt. Allir þreyttir.

Mánudagur: Fórum í Løveparken með mömmu og pabba. Hjörtur vann fyrir þá verkefni og fékk frímiða. Það er frábær garður sem ég gef *****, allir sem eiga leið um Jótland verða að kíkja þangað. Það er svo skemmtilegt leiksvæði og þar er hægt að eyða öllum deginum vopnaður nesti og góðu veðri. Fórum svo í sunnudagskjúlla til mömmu og pabba.

Í dag er svo enn ein Århusferðin því Ragnhildur er að fara í afmæli til Þóru. Á meðan ætlum við hin að fara að sækja stóla í ILVA.
Kaupa, kaupa, fylla gáminn.