sunnudagur, nóvember 26, 2006

Jú jú

Kvíslatunga 82 var rétt svar. Meira um það hér.

Siggi og Búddi sameinuðust um svarið og geta því hist í Spóahöfðanum og drukkið bjórinn sinn saman ;) Já, eða Kvíslatungunni. Jafnvel naglhreinsað nokkrar spýtur í leiðinni... nei, segi svona.

Gaman að því.

laugardagur, nóvember 25, 2006

Jæja - nú kemur smá gáta

Ég er að verða geeeeðveik á ruslpóstinum sem hrúgast inn í inboxið mitt. Hvernig kem ég í veg fyrir hann? Anyone?

Ég er annars eins og litlu krakkarnir, þegar ég fæ smá pepp í aðra getraun verð ég svo glöð að ég hlýði.

Nú er s.s. komið að myndagetraun. Hvar er þessi mynd tekin?















Þessi er auðveld fyrir suma en erfið fyrir aðra... Bjössi ætti að vita svarið.

Já og flott samhverfa Siggi popp. En það þýðir ekkert að heimta fleiri getraunir og taka ekki þátt! Held það sé ekki Siggi frændi samt - ekki nema hann sé farinn að kalla sig popp eftir að hann tók þátt í karókí-keppninni á Ströndum :)

kg

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Alltaflangaðmannsemkannaðdansa

Næsta getraun er eiginlega gefins því ég veit að Bjössi Hák er að bíða eftir því að vinna svo hann megi koma í heimsókn :) Það má sko koma í heimsókn þó maður vinni ekki getraun, en hann er svo feiminn að hann þorir ekki. Ekki nema vinna fyrir því.

Úr hvaða kvikmynd er þessi frasi og hvers lenskur var karakterinn sem svo fallega mælti:
"Alltaflangaðmannsemkannaðdansa"?


Svo hef ég alltaf voða gaman af svona samhverfum. Held þetta sé sú lengsta sem ég hef séð:
ALLI GULLI SÁ ANNAN KLÚT STÚLKNANNA Á SILLU GILLA

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Fór í bíó

Jú mikið að gera í vinnunni þessa dagana. Svo mikið að ég hef ekki enn byrjað á ritgerðinni minni!! sem stendur nú til bóta.

Við hjónakorn skelltum okkur í bíó í gær að sjá Mýrina. Fannst hún alveg góð - en ekki svona rosaleg eins og er búið að tala um. Verð að nefna nokkur dæmi sem fóru í taugarnar á mér.

Í fyrsta lagi þoli ég ekki í íslenskum myndum - alltaf eins myndataka. Soldið erfitt að útskýra en reyni: Þegar verið er að keyra úti á landi er tekin mynd af náttúrunni, í þessu tilfelli hraunið á Suðurnesjunum og flogið áfram þangað til myndavélin endar á bílnum. Alveg óþolandi vont í augun að horfa á þetta og frekar mikill óþarfi að hafa þetta a.m.k. 4 sinnum í einni mynd. Kannski flott einu sinni.
Í öðru lagi, annað sem tengist myndatökunni: Rosalegar nærmyndir af öllu og engu er líka leiðinlegur kækur hjá íslenskum myndatökumönnum. Allt í lagi að hafa þetta með en það má ekki alveg gleyma sér í þessum stíl. Það er ekkert þægilegt að horfa upp í nasirnar á fólki og undir fingurneglurnar o.s.frv. Kannski þykir þetta flott hjá fagmönnunum en þetta var farið að fara óskaplega í taugarnar á mér í gær. Kannski eru þeir greyin alltaf að mynda inni í svo litlum rýmum að þeir verða hreinlega að vera ofan í leikurunum :)
Í þriðja lagi þá bara skil ég ekki hvernig lögreglufólkið gat litið á þessa mynd (þið vitið sem hafið séð myndina eða lesið bókina) sem eitthvert krúsíal atriði til að leita að morðingjanum. Hvað varð um að skoða morðvopnið og ummerki á morðstaðnum? Hvað þá klámið í tölvunni - þætti það nú líklegra til að tengjast málinu svona í fljótu bragði. Nei nei, fundu eina mynd falda undir skúffu og þá var málið bara komið. Þarna var aðal sönnunargagnið! Og bara gengið út frá því frá upphafi eiginlega.
Hjörtur segir að ég horfi of mikið á CSI. Kannski. Greinilegt að Arnaldur og Baltasar gera það ekki ;)

En þetta var alveg mjög góð mynd í heildina sko. Bara svona góð íslensk mynd. Ekki eins góð og ekki eins vel leikin og Börn fannst mér þó. Það er best leikna íslenska mynd sem ég hef séð.

Jæja, ætli ég hætti ekki núna. Er örugglega sú fyrsta sem set út Mýrina - hef ekkert heyrt nema lof og hrós um hana. Var að reyna að fara ekki með miklar væntingar og búast ekki við of miklu en svona er þetta - þetta er allt ein helvítis mýri.

p.s. ný getraun í vinnslu. Bíðið spennt.

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Og svarið er...

Guernsey!!

Eins og mr. gúggli sagði sumum ykkar :)

Ásdís verður að teljast sem sigurvegari í þessari getraun þar sem hún var fyrst með svarið. Hún má, eins og Sævar, ráða hvort hún þiggur bjór (eða glas af lífrænt ræktuðu rauðvíni ;)) eða leggi til næstu getraun.

Ég verð annars að koma því að hvað það er gaman að sjá Gísla frænda skjóta inn ágiskunum í getraununum. Gísli og pabbi (nafni hans) eru systkinabörn. Held að Gísli sé nokkurn vegin mitt á milli mín og pabba í aldri. Sennilega aðeins nær mér þó. Gísli á systur sem heitir Erna eins og mamma og svo er Jóna frænka (eins og hún er alltaf kölluð) systir hans og ég hef mest umgengist hana af þeim systkinum í gegnum tíðina. Eða a.m.k. í seinni tíð. Hún var líka mikið á mínu heimili þegar ég var barn.
Þau systkini eru frá Höfn í Hornafirði og við fórum oft til þeirra, flugum stundum á sunnudögum og einhvernvegin tengi ég 1. maí e-ð við Höfn. Þetta var þegar pabbi átti flugvél og við skruppum í svona sunnudagsrúnta hingað og þangað um landið. Við Íris fengum líka oft að vera hjá Einari og Guðbjörgu, foreldrum þeirra, í einhvern tíma á sumrin. Það var gaman. Erna átti voða flott kúluspil sem mér fannst óskaplega skemmtilegt. Gott ef Einar bjó það ekki til í smíði!! Ekki viss samt.

En þetta er sem sagt sagan af honum Gísla Einars :) Hvernig hann rataði hingað inn veit ég samt ekki - en gaman að því!!

laugardagur, nóvember 11, 2006

Þriðja vísbending

Nonni er greinilega e-ð svekktur að hafa aldrei unnið svo hann er farinn að kommenta á vinafjölda minn. Vil bara biðja þig - Nonni minn - um að halda þig á mottunni.

Það er engin regla að getraunirnar eigi að vera auðveldar - fjórar vísbendingar eru í boði í þetta sinn og hér kemur sú þriðja:

Eyjan hefur sinn eigin gjaldmiðil og er skattaparadís.

föstudagur, nóvember 10, 2006

Önnur vísbending frá Sævari

2. vísbending: Eyjan er hluti af breska heimsveldinu


hahahhahahhahhaha þið getið þetta aldrei!!!

djók

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Bréf frá Sævari

Sæl Klara,

gaman að vera að rústa þessari keppni.
Þar sem ég á nóg af bjór býðst ég til að koma með vísbendingaspurningu.

Spurt er um eyju

1. vísbending: Eyjan er í Evrópu


Restin af bréfinu kemur seinna...
Lofa að setja næstu vísbendingu ekki inn fyrr en í fyrramálið.

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Vóóóó

Svarið er komið!!

Aftur er Sævar sigurvegari, til hamingju!! Dufþekja var rétt - eða Dufþakur eins og það er kallað í daglegu tali. Hjörtur fær þó sér verðlaun fyrir að giska á Heimaklett (og Dufþak á eftir Sævari). Þau verðlaun verða afhent í kvöld.

Sævar kom einnig inn á fjórðu vísbendingu sem hefði orðið: Þræll Hjörleifs hét sama nafni og er kennileytið nefnt eftir honum.

En þriðja vísbendingin - vill einhver giska á hana? Til er xxxx sem ber sama nafn. Hvað er xxxx??

Hvað segirðu Sævar, hvort viltu bjór í verðlaun eða búa til næstu getraun?

Önnur vísbending

Enginn hefur giskað á rétt svo hér kemur næsta vísbending:

Nánar tiltekið á Heimakletti

Hehe, nú færist fjör í leikinn...

Þetta ætti nú að vera getraun fyrir vini hans Hjartar sem þekkja hvern krók og kima á landinu :)

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Getraunin hennar Tinnu

Ég er komin með eina rosalega frá Tinnu. Er nokkuð viss um að vinir hans Hjartar fíli þessa meira að segja.

Spurt er um kennileiti.

1. vísbending:
Kennileitið er í Vestmannaeyjum (að sjálfsögðu)


Og getiði nú.

mánudagur, nóvember 06, 2006

Vinningshafi

Ætla að byrja á því að biðja Auði afsökunar á attitjúdinu gagnvart henni. Hún var voða sár þegar ég hitti hana áðan því það var ekki einu sinni broskarl á eftir skítkastinu. Fyrirgefðu Auður mín, ég kann að meta stuðning þinn í getraunasamkeppninni og skal hætta að elta þig eina á þessari síðu.

En rétta svarið kom frá (tramramtramramramram) Tinnu!!! Það var nefnilega verið að tala um Gay Pride - og ekki bara hátíðina heldur einmitt skrúðgönguna.

Tinna hefur nú tækifæri til að semja næstu getraun. Hún má algjerlega ráða forminu á henni og hefur bara algerlega frjálsar hendur hvað þetta varðar. Hvað segirðu Tinna, þiggurðu verðlaunin ??

Baggalútur

Mér finnst þeir hreint frábærir. Tók þetta af síðunni þeirra:

— DAGBÓK —
Neðri-Breiðhyltingar
Slagur við Efra-Breiðholt fyrir framan Broadway klukkan 10 á morgun.
Leiklistarnemar
munið salernin.
Framliðnir
munið takmörkun á handfarangri við Gullna hliðið vegna hryðjuverkaógnar.
Látið mig þó ekki trufla getraunina, sem er enn í gangi í póstinum fyrir neðan.

sunnudagur, nóvember 05, 2006

Önnur getraun

Ég er byrjuð að fata börnin upp fyrir jólin. Ég og Ragnhildur fórum í skvísuferð í Smáralind áðan og komumst langleiðina með þau bæði. Eigum smá eftir samt. Þau verða með eindæmum smart um jólin, líkt og venjulega ;) Við Ragnhildur fundum föt á hana sem við fíluðum báðar - sem gerist ekki svo oft. Hittum tengdó sem var á leiðinni í bíó og hún náði að hjálpa til við valið og fannst það ekki leiðinlegt.

En vindum okkur í getraun númer tvö. Spennandi að vita hvort Íris nái sér í nýtt viðurnefni.

1. vísbending:
Spurt er um árlegan viðburð á Íslandi.

Í þetta sinn er ekki bjór í verðlaun heldur fær vinningshafinn að ákveða næstu getraun.
Svona er þetta skemmtilegt. Maður veit aldrei hvað kemur næst!

laugardagur, nóvember 04, 2006

Rétt svar komið

Það er komið rétt svar og hver haldiði að hafi unnið???

SÆVAR

Það var nefnilega hnúfubakur sem ég var að spurja um. Sævar, þú getur vitjað vinningsins hvenær sem er. Spurning hvort við köllum Írisi ekki Íris rækja hér eftir. Skárra en Íris skítafýla eins og hún hefur verið kölluð hingað til.

Þarf að hugsa upp aðra getraun. Stay tuned.


p.s. hættu svo að væla Hjörtur - mín getraun var einfaldlega skemmtilegri en þín.

föstudagur, nóvember 03, 2006

Önnur vísbending

Svarið er ekki alveg komið en einn þáttakandi er mjög nálægt því. Ég var hins vegar að leita að ítarlegra svari. Þessi þáttakandi fær þó bjór að launum fyrir nálægheitin.

Önnur vísbending er því:
Dýrið er sjávardýr.

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

1. getraun

Var með yfirlýsingar á síðunni hans Hjartar um að vera með skemmtilegri getraun en hann svo nú er um að gera að standa sig!!

Ég ætla að byrja á vísbendingaspurningu og reglurnar eru þannig að fyrsta vísbending er mjög víð, sú næsta aðeins þrengri og svo koll af kolli. Sá sem fyrst getur rétt eftir fyrstu vísbendingu fær þrjá bjóra í Spóahöfðanum - við fyrsta tækifæri. Sá sem fyrst getur rétt við annarri fær tvo og sá sem fyrst getur rétt við þriðju vísbendingu eða þar á eftir fær einn bjór. Svona held ég að ég eigi séns í að toppa Hjört, þ.e. ekki bara skemmtilegri getraun heldur einnig veglegri vinningar og meira í húfi. Hvað segiði um það?

Var komin með eina rosalega þunga en vil frekar taka þetta stigvaxandi svo þessi verður ekkert slæm.

Fyrsta vísbending:
Spurt er um dýr.

Einn, tveir og byrja.